þar sem bullið nær yfirhendinni oftar en þig grunar // the blabbering blob
föstudagur, júlí 03, 2009
komin heim úr sveitinni
eins og við mátti búast var geggjað í sveitinni, enda í sjúklega góðum félagsskap. maður klikkar ekki með tvemur loðnum, gömlum og gráum.
enda var einblínt á sameiginleg áhugamál okkar þriggja, þeas að sofa og éta. stundum tókum við tvífætlingarnir uppá því að lesa, ég kláraði til að mynda Vefarinn mikli frá Kasmír og hafði gaman að. eða svona. er til sú kvenpersóna úr bókunum hans Dóra Ká Ell sem ekki er algjörlega vænisjúk og afburða litlaus leiðindakrukka?
oh jæja, HKL talar vel um Guð í þessari, svona við og við allavega, þannig að þetta slapp.
svo tókst mér nokkurn vegin að verða gleðikonufær á elskuðu harmónikkuna mína, á samt ennþá nokkuð erfitt með að gera eitt með einni hendi en annað með hinni. oh well, þetta hefst kannski með tímanum. ég sannreyndi líka kenningu snillings Smára hljómfræðikennara, að það ER hægt að spila langlanglanglang flest lög með þremur hljómum :)
Svo þetta sé nú almennilega Íslendingslegur póstur þá verð ég víst að tala um veðrið, en það var s.s. sól fyrsta daginn og sól síðasta daginn. inná milli var rigning eða ekki. mér tókst nema hvað að brenna pínulítið, í kjölfarið fór hinsvegar að rigna og mér tókst að láta gefa mér alvöru gamaldags túttur úr Kaupfélaginu Laugavatni, SCORE!
Óskadýrið Óskar var á mörkum þess að fara yfir um af ánægju, heill skógur af trjám og drasli sem hægt var að þefa af og svo var bæði hægt að fara undir húsið og undir pallinn... eitthvað sem sjaldan býðst hetjum af hans kalíber. á þriðja degi áttaði hann sig (eftir töluverðar rannsóknir sem fólust m.a. í því að standa uppá borði og uppá sófa og þefa af alefli uppí loft) að það var stigi úr stofunni upp á svefnloft. og þar uppá pallinum var gæðingurinn næstum hverja stund síðan, enda hægt að fylgjast afar náið með þjónustufólki sínu við leik og störf. aðallega voru eldhússtörfin kjörin meðfylgni, enda var fiskur soðinn oftar en einu sinni.
Ég sjálf, kláraði trefil sem ég hef verið að vesenast við að prjóna uppá síðkastið. er búin að fara þónokkuð margar hringi í ferlinum sjálfselska-gjafmildi... er komin á þá niðurstöðu að ég ætla að eiga hann sjálf AFÞVÍ að mér finnst hann ekki nógu flottur fyrir þá góðu konu sem ég ætlaði að gefa hann. svo hún fær bara eitthvað annað.
talandi um góðar konur, þá fórum við á Sólheima og eyddum óvart geðveikt miklum pening. römbuðum nefnilega inná myndlistasýningu vistmanna og fjárfestum í einni mynd. sem er Svæsilega flott. reyndar voru tvær aðrar myndir eftir þessa listakonu á sýningunni og hver annarri flottari, en þessi sem við keyptum var sú eina óselda. ég held þetta listalið, meðhverja gráðuna ofan í annarri frá "fínum" skólum "útum allan heim", sem varla nær andanum fyrir hrokanum og bullinu í sjálfu sér og þarf að skrifa heilar hilluraðir af útskýringum svo fólk "skilji" listina þeirra, ætti nú bara að fara að gera eitthvað skynsamlegra (nefni engin nöfn, en þið vitið ÖLL um hvað ég er að tala). myndin verður á sýningunni út sumarið svo fáum við hana senda. hlakka mikið til :) svo fengum við okkur kaffi.
Sólheimar eru ótrúlegur staður, mér leið svolítið eins og í Disney mynd þegar við keyrðum niður innkeyrsluna, það voru háir heiðfjólubláir brúskar af lúpínu á hvora hönd og svo flugu litlir fuglar fram og til baka rétt fyrir framan bílinn... ég eiginlega bjóst við að þeir myndu hvað á hverju draga fram blómakransa og tísta "velkomin! velkomin!". hvet alla til að kíkja þangað við tækifæri, þó þar sé reyndar varla þverfótandi fyrir grænmetisætandi óþvegnum þjóðverjum í sjálfboðavinnu.
þrátt fyrir þessa gífurlega gleði og hamingju vorum við nú öllsömul fegin að koma heim, reyndar skyggði á skýlausa heimkomuvellíðanina að uppgvöta að blessaðar kryddjurtirnar mínar lifðu þennan viku viðskilnað ekki af, að mestu leyti... held það sé nú hægt að lappa uppá þær með tíð og tíma. ein rósin mín var reyndar það hugulsöm að bíða með að blómstra á meðan ég var fjarverandi, en önnur var það óhugulsöm að drepast. svona geta BLÓMIN verið dyntótt.
Gerast áskrifandi að:
Færslur (Atom)