föstudagur, júlí 31, 2009

OMG!

ég var, eins og aðra daga síðan almennilegheit 11 komu í hús að horfa á einn góðan þátt... haldiði ekki að Charlie (sem er dóttir Jennu sem var trúlofuð bobby og eignaðist með honum barn, er hann ákvað að byrja aftur með fyrrverandi svo jenna giftist ray) hafi verið að kela við kærasta sinn randy, og sá sem lék hann var ENGINN annar en brad pitt!
talandi um að byrja á toppnum!
óje

mánudagur, júlí 27, 2009

nákvæmlega

mamma talar stundum um vini mína sem "gamla" og á þá við þá staðreynd að ég hafi þekkt viðkomandi lengi. um daginn hitti ég einn af þessum gömlu vinum mínum á kaffismiðjunni, drakk með honum ótæpilega af kaffi og talaði mjög illa um fólk sem hefur keypt sér mikið af fínum hlutum án þess að hafa efni á því og hversu mjög það væri gaman að búa út á landi. ákaflega föðurlandssinnuð. eftir þetta keyptum við póstkassalykla í Brynju og dót sem ekki er mikilvægt í tiger. svo vorum við í rólegheitunum að hjóla heim í gegnum Hljómskálagarðinn, á þar til gerðum malarstígum, þegar Gamli vinurinn segir: "hey mannstu í gamla daga þegar við fórum í skranskeppni?"
hér er hægt að gera smá innskot og bæta því inn hversu ALVÖRU gömul við erum, því þegar við vorum að alast upp var gatan okkar í miðbæ Hafnarfjarðar ómalbikuð.
"jáhá!" segi ég galvösk og gef vel í á hjólinu, gríp svo með alefli í bremsurnar (já líka frambremsuna) og ætla aldeilis að skrensa almennilega á mölinni.
til að gera langa sögu stutta þá flaug ég á hausinn og skrámaði mig á löppinni og öðrum lófanum. sem er nú nokkuð góður árangur, enda fór ég í kollhnís.
semsagt fyrirsögnin gæti verið: "tæplega þrítug stúlka slasast lítillega eftir skrenskeppni í Hljómskálagarðinum"

miðvikudagur, júlí 22, 2009

ég var nú að spá í að blogga svona bara uppá grínið, var að vakna, en er ekki nógu vöknuð til að gera neitt af viti... þið kannist við þetta. ekki skil ég fólk sem getur vaknað SNEMMA og verið svo með útvarpsþætti. ég get varla hugsað á morgnana, hvað þá haldið uppi samræðum (HVAÐ ÞÁ áhugaverðum!). oh jæja.
þetta var það eina sem mér datt í hug að blogga. hoho :)

þriðjudagur, júlí 07, 2009

blaðlús, namm


í nokkurn tíma hef ég verið að slást við blaðlús í eldhúsglugganum mínum. því miður ekki eina... segir maður þá ekki blaðlýs?
allavega.
þar sem flestar matjurtirnar mínar svo að segja drápust meðan ég var að sleikja letipúka í sumarbústað, gerði ég fastlega ráð fyrir því að blessaðar lýsnar myndu nú taka sig til og drepast líka þegar ég svo klippti öll laufblöð af.
já neinei, helvítið færði sig bara yfir í ALOA VERA plöntuna mína. aloa vera er btw KAKTUS. síðan hvenær hafa lýs getað étið kaktsua? síðan aldrei til dæmis!
grr.
nú verður eiginmaðurinn sendur í Blómaval að kaupa eitur. mikið væri ég til í að hér á landi væru Maríuhænur, þá gæti ég hæglega rölt útí garð, veitt mér tvær rauðar sætar pöddur og þessar lýs væru úr sögunni. allt vistvænt og fínt. en neeeii, það er víst of kalt og ble ble. ég bíð bara í ofvæni eftir þessari glóbal varmíng.... right this way please (ef ske kynni herra warming talaði bara ensku).
nei segi svona.
annars var ég að lesa mér til um þessar grænu vinkonur mínar og svei mér þá ef ég verði ekki að gefa þeim smá kredit... þær eru ÞVÍLíKT advanced í fjölgun. fullorðins lýsnar Fæða lifandi afkvæmi, sem næstum öll eru kvenkyns og meyfæðingar (eins og María) eru mjög algengar. afkvæmin fæðast meira að segja stundum þunguð!
talandi um að hafa bara EITT á dagskrá, sparar manni klárlega tíma og fyrirhöfn við ða leita af tilgangi lífs síns.

föstudagur, júlí 03, 2009

komin heim úr sveitinni



eins og við mátti búast var geggjað í sveitinni, enda í sjúklega góðum félagsskap. maður klikkar ekki með tvemur loðnum, gömlum og gráum.
enda var einblínt á sameiginleg áhugamál okkar þriggja, þeas að sofa og éta. stundum tókum við tvífætlingarnir uppá því að lesa, ég kláraði til að mynda Vefarinn mikli frá Kasmír og hafði gaman að. eða svona. er til sú kvenpersóna úr bókunum hans Dóra Ká Ell sem ekki er algjörlega vænisjúk og afburða litlaus leiðindakrukka?
oh jæja, HKL talar vel um Guð í þessari, svona við og við allavega, þannig að þetta slapp.
svo tókst mér nokkurn vegin að verða gleðikonufær á elskuðu harmónikkuna mína, á samt ennþá nokkuð erfitt með að gera eitt með einni hendi en annað með hinni. oh well, þetta hefst kannski með tímanum. ég sannreyndi líka kenningu snillings Smára hljómfræðikennara, að það ER hægt að spila langlanglanglang flest lög með þremur hljómum :)
Svo þetta sé nú almennilega Íslendingslegur póstur þá verð ég víst að tala um veðrið, en það var s.s. sól fyrsta daginn og sól síðasta daginn. inná milli var rigning eða ekki. mér tókst nema hvað að brenna pínulítið, í kjölfarið fór hinsvegar að rigna og mér tókst að láta gefa mér alvöru gamaldags túttur úr Kaupfélaginu Laugavatni, SCORE!
Óskadýrið Óskar var á mörkum þess að fara yfir um af ánægju, heill skógur af trjám og drasli sem hægt var að þefa af og svo var bæði hægt að fara undir húsið og undir pallinn... eitthvað sem sjaldan býðst hetjum af hans kalíber. á þriðja degi áttaði hann sig (eftir töluverðar rannsóknir sem fólust m.a. í því að standa uppá borði og uppá sófa og þefa af alefli uppí loft) að það var stigi úr stofunni upp á svefnloft. og þar uppá pallinum var gæðingurinn næstum hverja stund síðan, enda hægt að fylgjast afar náið með þjónustufólki sínu við leik og störf. aðallega voru eldhússtörfin kjörin meðfylgni, enda var fiskur soðinn oftar en einu sinni.

Ég sjálf, kláraði trefil sem ég hef verið að vesenast við að prjóna uppá síðkastið. er búin að fara þónokkuð margar hringi í ferlinum sjálfselska-gjafmildi... er komin á þá niðurstöðu að ég ætla að eiga hann sjálf AFÞVÍ að mér finnst hann ekki nógu flottur fyrir þá góðu konu sem ég ætlaði að gefa hann. svo hún fær bara eitthvað annað.
talandi um góðar konur, þá fórum við á Sólheima og eyddum óvart geðveikt miklum pening. römbuðum nefnilega inná myndlistasýningu vistmanna og fjárfestum í einni mynd. sem er Svæsilega flott. reyndar voru tvær aðrar myndir eftir þessa listakonu á sýningunni og hver annarri flottari, en þessi sem við keyptum var sú eina óselda. ég held þetta listalið, meðhverja gráðuna ofan í annarri frá "fínum" skólum "útum allan heim", sem varla nær andanum fyrir hrokanum og bullinu í sjálfu sér og þarf að skrifa heilar hilluraðir af útskýringum svo fólk "skilji" listina þeirra, ætti nú bara að fara að gera eitthvað skynsamlegra (nefni engin nöfn, en þið vitið ÖLL um hvað ég er að tala). myndin verður á sýningunni út sumarið svo fáum við hana senda. hlakka mikið til :) svo fengum við okkur kaffi.
Sólheimar eru ótrúlegur staður, mér leið svolítið eins og í Disney mynd þegar við keyrðum niður innkeyrsluna, það voru háir heiðfjólubláir brúskar af lúpínu á hvora hönd og svo flugu litlir fuglar fram og til baka rétt fyrir framan bílinn... ég eiginlega bjóst við að þeir myndu hvað á hverju draga fram blómakransa og tísta "velkomin! velkomin!". hvet alla til að kíkja þangað við tækifæri, þó þar sé reyndar varla þverfótandi fyrir grænmetisætandi óþvegnum þjóðverjum í sjálfboðavinnu.
þrátt fyrir þessa gífurlega gleði og hamingju vorum við nú öllsömul fegin að koma heim, reyndar skyggði á skýlausa heimkomuvellíðanina að uppgvöta að blessaðar kryddjurtirnar mínar lifðu þennan viku viðskilnað ekki af, að mestu leyti... held það sé nú hægt að lappa uppá þær með tíð og tíma. ein rósin mín var reyndar það hugulsöm að bíða með að blómstra á meðan ég var fjarverandi, en önnur var það óhugulsöm að drepast. svona geta BLÓMIN verið dyntótt.