þriðjudagur, janúar 16, 2007

bölvun hjóla-tótu

ég veit ekki hvernig ég get útskýrt þetta án þess að hljóma soldið eins og geðsjúklingur, en held það verði bara að hafa það.
ég er viss um að einhver/eitthvað Vill ekki að ég hjóli og það sé bölvun á hjólinu mínu, eða þá á mér ef ég hjóla á því.
það hefur sprungið á því linnulaust frá því ég fékk það og meira að segja sérútbúnar slím-slöngur virðast bara springa eins og 17. júní blöðrur undir mér þó að framleiðendur þeirra lofi því að öll göt undir 3 mm. eigi sjálfkrafa að lokast.
sem það gerir ekki.
en nú er ég búin að skella nýrri slímslöngu í og allt reddí... þvoði hjólið meira að segja og spreyaði WD-40 á öll sjáanleg liðamót og skrúfganga.
og hvað gerist?
mið-england breytist í andrúmslofts-sundlaug. það hefur rignt stanslaust síðan ég pumpaði í viðgerða dekkið og það ekki smá. líku er spáð út vikuna.
mig er farið að gruna að gæðablóðið Bryngerður amma mín sé farin að færa út kvíarnar og auk þess að setja upp vandlætingasvip og fussa sérkennilega þegar henni mislíkar, sé hún farin að stunda kukl og álaga-ásetningu.
henni fannst s.s. ekki sniðugt að ég skyldi kaupa mér hjól og ætla að hjóla í skólann...

en ég ætla nú bara samt að fara á hjólinu í skólann.

ef hér er ekkert bloggað á næsta mánuði þá hef ég hjólað oní holu og horfið af yfirborði jarðar.